Skilaverkefni 1: Greinin sem ég kenni

Viðhorf mitt til greinarinnar sem ég kenni.
Ég útskrifaðist með BA í sálfræði og afbrotafræði frá Háskólanum í Pretoríu í Suður Afríku og með MA í félagsfræði frá HÍ. Ég er núna í 30 eininga réttindanámi við Kennaraháskóla Íslands og þar sem ég hef fullan hug á að sækja um starfsréttindi í bæði grunn- og framhaldsskóla ákvað ég að taka æfingakennsluna á grunnskólastigi og valdi mér fagið „Lífsleikni”.

Ég tel að Lífsleikni sé mjög mikilvægt fag sem opnar augu okkar meðal annars fyrir eigin, og annarra, þörfum og löngunum og vekur okkur til umhugsunar um samfélagið. Mér finnst mjög gaman að spjalla við nemendur um lífið og tilveruna og fá þá til að velta samfélaginu aðeins fyrir sér. Eins finnst mér óskaplega mikilvægt að þjálfa nemendur í að segja jákvæða hluti um sjálfa sig. Það er í rauninni grátlegt hvað krakkar geta verið harðir í eigin garð og rifið sig niður en eiga svo afskaplega erfitt með að segja góða hluti og jákvæða um sjálfa sig, og í mörgum tilfellum um samnemendur sína. Því finnst mér að við þurfum að þjálfa þá markvisst í að sjá sínar góðu hliðar og að tjá sig um þær. Það er frábært að fylgjast með öryggi þeirra vaxa í slíkri tjáningu. Mörg fyrstu skiptin eiga þeir afskaplega erfitt með að finna eitthvað jákvætt í eigin fari, og eftir mikla hvatningu kemur kannski „ja ég er góð/ur að teikna” eða „ég er góð/ur í fótbolta”, sem er náttúrulega bara frábært. En það er ekki síður mikilvægt að þeir geti sagt hvort þeir séu til dæmis þolinmóðir, tillitssamir, traustir vinir, samviskusamir, umburðarlyndir o.s.frv.

Lífsleiknitímar geta verið óskaplega skemmtilegir og það heppnast yfirleitt vel að brjóta aðeins upp hina hefðbundnu kennslu og bara spjalla um daginn og veginn og það sem okkur finnst mikilvægt. Eins dýpkum við skilning okkar á því hvernig við berum virðingu fyrir okkur sjálfum, öðrum einstaklingum, eigum okkar og annarra. Eins tel ég mikilvægt að fræðast um einhverja ákveðna hópa í samfélaginu, til dæmis fatlaða, eða innflytjendur, og spjalla um aðstæður þeirra og kynna okkur þær nánar. Oftast kemur umburðarlyndi og virðing fyrir öðrum með þekkingu og með því að fjalla um aðstæður þessara hópa lærum við aðeins á samfélagið.

Ég gæti sjálfsagt haldið endalaust áfram að fjalla um mikilvægi Lífsleikninnar en læt þetta nægja.

Viðbrögð við skilaverkefni 1

Author: Þórunn Júlíusdóttir
Date: 19 September 2007 21:07

Sæl Guðlaug,
mér finnst verkefnið þitt mjög gott og frábært að þú sért að kenna þetta efni því þú ert greinilega áhugasöm. Það er einmitt svo mikilvægt að styrkja krakkana og gera þau betur tilbúin að takast á við lífið. Þau sitja þá frekar við sama borð með því að fá tækifæri til að fjalla um oft viðkvæma hluti (sem skipta svo miklu máli) því auðvitað eru heimilin jafn misjöfn og þau eru mörg. Af því þú nefndir umburðarlyndi þá hef ég unnið með innflytjendum og flóttafólki og fólk nær einfaldlega ekki að blómstra nema það fái tækifæri og möguleika, eitthvað sem allir eiga rétt á.
Gangi þér vel!

Author: Thelma Hrund Sigurbjörnsdóttir
Date: 24 September 2007 10:26
Sæl Guðlaug,
Ég sé að við erum á svipuðu áhugasviði. Tek undir með þér hvað það getur verið erfitt að fá marga til að segja eitthvða jákvætt um sjálfan sig. Sjálfsstyrking er mikilvæg. Ég starfa í atvinnuendurhæfingu þar sem við vinnum mikið með þessi mál. Gangi þér vel með að stappa stálinu í unga fólkið.
Kveðja
Thelma

Skilaverkefni 2: Viðhorf mín til nemenda

Hver eru viðhorf mín til nemenda?
Almennt hef ég mjög jákvæð viðhorf til nemenda, upp til hópa eru þetta allt góðir og yndislegir krakkar. Ég hef kennt í nokkur ár og það hefur verið mjög gaman að fylgjast með nemendum og skynja hve ólíkir þeir eru. Maður er fljótur að læra að ekki þýðir að bjóða öllum upp á það sama, hvorki hvað námsefni né kennsluaðferðir varðar. Sumum nemendum gengur betur að vinna með höndunum og jafnvel að draga upp mynd af því sem við erum að gera. Á meðan aðrir til dæmis gera mikið af því að taka glósur og þess háttar. Mér finnst það mjög krefjandi, en um leið mjög gefandi, að finna út hvað hentar hverjum nemenda. Svo finnst mér líka alveg frábært að kynnast því hvað margir þeirra hafa rosalega gott sjónminni. Það er stundum alveg lyginni líkast.

Þrátt fyrir að nemendur séu almennt frábærir krakkar, þá hef ég að sjálfsögðu kynnst nemendum sem mér líkar síður við en aðra. Í fyrstu var mjög erfitt að viðurkenna fyrir sjálfri mér að mér líkaði misvel við nemendur mína, það var erfiður biti að kyngja. En maður verður að vera raunsær og taka þessu eins og öllu öðru í kennslu. Það er náttúrulega óraunhæft að ætlast til þess að manni líki vel við alla, ekki frekar en að öllum nemendum líki við mann sjálfan. Það reynir hins vegar á fagmennsku kennarans að láta það ALDREI í ljós og aldrei að mismuna nemendum hvernig sem manni líkar við þá.

Hvaða augum lít ég þá?
Eins og ég talaði um hér að ofan, þá eru nemendur náttúrulega eins ólíkir og þeir eru margir. Hver og einn er einstakur og kemur það í hlut kennarans að virkja hinar ólíku hliðar nemenda sinna og að koma til móts við ólíkar þarfir og getu hvers og eins.

Hvernig hugsa ég um fólk sem námsmenn?
Almennt held ég að fólk séu góðir námsmenn og vilja gera sitt besta. Ég held að við sem kennarar verðum að sjá til þess að nemendur líti á námið sem áfanga að einhverju markmiði og hafi þannig tilgang. Jafnframt verðum við að vera dugleg að hvetja þá áfram og gera námið þannig úr garði að það sé hvetjandi. Mér hefur því miður fundist að nemendum í grunnskóla skorti stundum metnað og hvata til að gera sitt besta. Þar held ég að við kennarar verðum að taka okkur á og kveikja með þeim áhuga og metnað. Þetta má til dæmis gera með því að hætta að matreiða allt ofan í þá í grunnskóla. Ég tel að við verðum að láta þá taka meiri ábyrgð á sínu námi og námsframvindu fyrr á skólagöngunni. Það getur verið fullseint í rassinn gripið að ætlast til þess að þegar þeir eru komnir á framhaldsskólastigið séu þeir skyndilega færir í að stjórna og bera fulla ábyrgð á sínu námi.

Hvað merkir í mínum huga að læra eitthvað vel?
Þegar ég er orðin örugg með eitthvað efni og lagt góða vinnu í það þá tel ég mig hafa lært vel. Eins tel ég að ég hafi lært ákveðið efni vel ef ég get komið því frá mér til nemenda á auðskilinn og öruggan hátt. Þegar maður kann efnið vel þá eykst öryggið og maður lendir ekki á gati í kennslustund ef nemendur spyrja einhvers sem maður er ekki öruggur með. Eins tel ég að maður hafi lært eitthvað vel ef við getum nýtt okkur þann lærdóm úti í atvinnulífinu og sinnt starfi okkar af öryggi.


Viðbrögð við skilaverkefni 2

Author: Ingibjörg Aldís Ólafsdóttir
Date: 8 October 2007 19:06
Hæ Guðlaug, fínt verkefni.
Ég er alveg sammála þér í því sem þú ert að segja. Og eins og ég sagði við Bergþór þá erum við öll að segja sömu hlutina varðandi nemendur og námsmenn, en bara hver með sínum orðum. Það að hver einstaklingur, nemandi, sé einstakur og að við þurfum að nálgast nemendur á ólíkan hátt, með fjölbreyttum kennsluaðferðum miðað við getu, eðli og upplag nemandans er lykilatriði í kennslu, og nauðsynlegt að hafa alltaf í huga sem kennari. Þetta kemur þú einmitt mjög vel inná í þínu verkefni. Einnig er ég sammála þér varðandi það að mismuna aldrei nemendum. Auðvitað er þetta rétt hjá þér, okkur líkar misvel við nemendur okkar, en við megum aldrei láta þá finna fyrir því. Allir nemendur okkar eiga rétt á sömu meðferð og framkomu, líka þeir sem okkur líkar síður við.
Kv. IAÓ.

Author: Þórunn Júlíusdóttir
Date: 9 October 2007 18:51
Sæl Guðlaug,
mér finnst verkefnið þitt mjög gott, þú ert svo hreinskilin og jákvæð. Nemendur eru eins og þú segir afar misjafnir og auðvitað leggjast þeir misvel í okkur en eins og þú segir kemur fagmennskan þá til skjalanna. Og þetta með að kennari kveiki áhuga er svo fínt að tala um, það er að mínu mati stórt hlutverk kennara.
Kær kveðja,
Tóta.

Author: Bergþór Morthens
Date: 10 October 2007 09:11
Sæl Guðlaug
Flott verkefni hjá þér og get ég tekið heilshugar undir allt sem þú segir. Við í hópnum fjöllum öll um ólíkar þarfir nemenda og hvernig sé best að koma til móts við þá, greinilegt að fjölgreindarkenningin hefur greinilega skilað sér til okkar. Mikilvægt eins og þú segir að sýna alltaf fagmennsku og sýna öllum nemendum jákvætt viðhorf og styðja þá í námi. Kennarinn er stór þáttur í lífi nemenda og verðum við að vera meðvituð um stöðu okkar og sýna ætíð fagmennsku í nálgun okkar, getur haft slæm áhrif á nemendur ef kennarinn stendur sig ekki í stykkinu. Hvað varðar áhuga og metnað nemenda er þetta alltaf sama gamla tuggan og sama umræða verið í gangi frá tímum Sókratesar og jafnvel lengra aftur. Það eru takmörk fyrir því hversu mikið kennarinn getur gert, að sjálfsögðu á hann að reyna allar mögulegar og ómögulegar leiðir til þess að vekja áhuga nemenda á náminu en það verður líka að koma eitthvað mótframlag frá nemandanum, það er ekki hægt að neyða hann til þess að læra.
Kv.
Bergþór

Author: Thelma Hrund Sigurbjörnsdóttir
Date: 10 October 2007 15:54
Sæl Guðlaug,
Virkilegar góðar hugleiðingar hjá þér. Það er aldrei auðvelt að játa það fyrir sjálfum sér að manni líki mis vel við þá sem maður er að kenna. Eins og þú varst að segja þá er alltaf gott fyrir mann samt að gera sér vel grein fyrir því þannig maður geti einbeitt sér að því að koma samt faglega fram við viðkomandi.
Kveðja
Thelma

Author: Asako Ichihashi
Date: 15 October 2007 19:54
Sæl Guðlaug,
Það er gaman að lesa verkefnið þitt.
Your opinion is very clear and getting to the point.
It is alway good to be positive thinking:-).
Like Bergþór wrote and Ingibjörg was pointing out, we all talked about that everybody is different and it is very important that we all are aware of fjölgreindarkenningin. And like you said, it is easy to have favorite students and other one. But we must not forget our profssionalism.
I belive that if the teacher is trying to be positive and do his best for students then they feel that from him and will follow him.

kv.Asako

Skilaverkefni 3: Kennsla og kennsluhættir

Hvað er góð kennsla í mínum huga?
Það er nú sjálfsagt ekki til neitt einfalt né rétt svar við því hvað sé góð kennsla. Hins vegar tel ég að kennari og nemendur hans hafi saman átt góða kennslustund ef kennarinn hefur náð að miðla nýrri þekkingu eða færni til nemenda sinna og þeir, á móti, náð að tileinka sér hana. Ég tel góða kennslu byggja á nokkrum atriðum og eru þau samskipti nemenda og kennara, námsmarkmið, kennsluaðferðir og áhugi og kunnátta kennarans.

Í fyrsta lagi tel ég mjög mikilvægt að kennarinn skapi gott kennsluandrúmsloft og komi fram af virðingu við nemendur sína og sýni þeim traust. Þannig byggir hann upp samskipti sem lýsa gagnkvæmri virðingu.

Næst ber að huga að námsmarkmiðum og þarf að setja þau fram á skipulegan hátt. Með námsmarkmiðum er kennarinn að setja fram þau markmið sem kennslan á að ná og tilgangi kennslunnar. Eins og áður sagði, þá verða námsmarkmiðin að vera sett skýrlega fram svo nemendur átti sig á efni og tilgangi kennslunnar. Markmiðin verða að ná til þekkingar nemenda, rökhugsunar, innsæis, færni, viðhorfa og sköpunarhæfileika þeirra (Ingvar Sigurgeirsson, 1996).

Þá er komið að kennsluaðferðum og er mikilvægt að kennarinn sé meðvitaður um fjölbreyttar kennsluaðferðir. Ingvar Sigurgeirsson skilgreinir kennsluaðferð sem „það skipulag sem kennarinn hefur á kennslu sinni, samskiptum við nemendur, viðfangsefnum og námsefni í því skyni að nemendur læri það sem að er keppt” (Ingvar Sigurgeirsson, 1999). Hann tekur einnig skýrt fram að engin ein kennsluaðferð sé betri en önnur. Kennarinn verður að finna þá kennsluaðferð sem hentar hans nemendum og hann verður að hafa í huga að mjög ólíklegt er að sama kennsluaðferð henti öllum. Kennarinn verður að vera sveigjanlegur og fær um að skipta á milli aðferða ef þurfa þykir og vera jafnvel með nokkrar aðferðir í sömu kennslustund. Kennsluaðferðin verður að taka mið af þörfum nemenda, aldri þeirra og þroska (Trausti Þorsteinsson, 2003). Það er mikilvægt að kennarinn geri sér grein fyrir því að engir tveir nemendur eru eins og að sérhver einstaklingur sé sterkur á alla vega einu sviði. Gardner  fjallar um átta greindir sem hann kallar málgreind, rök- og stærðfræðigreind, rýmisgreind, líkams- og hreyfigreind, tónlistargreind, samskiptagreind, sjálfsþekkingargreind og umhverfisgreind (Armstrong, 2001). Það er mikilvægt að kennarinn hjálpi nemendum sínum að finna sitt sterka greindarsvið og leggja rækt við það.

Að lokum er það áhugi, kunnátta og færni kennarans. Kennarinn verður að hafa áhuga á því sem hann er að kenna til að vel gangi. Hann verður að hafa námsefnið á hreinu og vera fær um að svara erfiðum spurningum frá nemendum. Ef nemendur finna að kennarinn er óviss um efnið þá geta þeir verið fljótir að missa áhugann og verður þá væntanlega lítið um miðlun á nýrri þekkingu og færni. Eins þarf kennarinn að vera hvetjandi, jákvæður og þolinmóður.

Þessi atriði tel ég að þurfi að vera til staðar til að góð kennsla geti átt sér stað. Oft finnst mér nú eins og kennarinn verði að vera nokkurs konar kraftaverkamanneskja. Það er ekki nóg að hann verði að vera fær í mannlegum samskiptum og vera glöggur á hinar mismunandi greindir nemenda sinna og hafa gott vald á hinum ýmsu kennsluaðferðum. Heldur þarf hann líka að vera fær í sinni grein og geta miðlað nýrri þekkingu og færni. Hann verður líka að vera þolinmóður og vera fær um að kenna ca 25 manna bekk þar sem kannski fimm til sjö nemendur eru með einhvers konar greiningu og þurfa einstaklings-námskrá. Þetta er ekkert smá en að mínu viti gefur þessi fjölbreytni og þessar miklu kröfur starfinu gildi.

Hvað merkir fyrir mér að kenna vel?
Ég tel það vera gríðarlega mikilvægt fyrir kennara að vera stöðugt að meta, breyta og betrumbæta kennsluaðferðir sínar. Það er varla hægt að ætlast til þess að kennarar hafi margar kennsluaðferðir á hreinu, heldur þurfa þeir að æfa og þjálfa þessa fjölbreytni. Það er mikilvægt fyrir kennara að sífellt þróa og endurmeta starf sitt (Trausti Þorsteinsson, 2003). Þeir þurfa að endurskoða það námsefni sem þeir kenna og athuga hvort annað jafnvel betra sé til. Eins þurfa þeir að stunda endurmenntun reglulega og tileinka sér nýja þekkingu. Annars tel ég vera mikla hættu á stöðnun.

Kennari verður að mæta vel undirbúinn í kennslu og vera vel skipulagður. Það fer varla á milli mála ef kennari mætir illa undirbúinn og getur það skemmt fyrir kennslunni. Ég veit það af eigin raun að í þau örfáu skipti sem ég hef mætt illa undirbúin þá varð ég mjög óörugg og skipulag tímans var lélegt og það segir sig sjálft að það kom niður á kennslunni. Eins verður góður kennari að aðlaga kennsluna að þörfum nemenda sinna eins og kom fram í svari mínu við spurningu 1. Ég tel að ef nemandi getur endurtekið með eigin orðum það sem hann lærði í kennslustund þá hafi góð kennsla átt sér stað. Eins er mikilvægt að kennarinn reyni að virkja sem flesta í kennslustundum og vekja áhuga þeirra á efninu og að fá sem flesta með sér.

Hvað merkir fyrir mér að kenna mína grein vel?
Þar sem ég á enga sérstaka grein, mun ég svara þessari spurningu út frá greininni Lífsleikni. Í Lífsleikni er gríðarlega mikilvægt að kennarinn sé mjög fær í mannlegum samskiptum og reynir þá heldur betur á samskiptagreind kennarans. Ég tel að Lífsleikni-kennslustund hafi heppnast vel ef ég hef fengið alla nemendur til að tjá sig og að taka þátt í kennslustundinni. Það getur reynst erfitt að fá suma nemendur til að vera virka og taka þátt, og finn ég sérstaklega fyrir þessu í fögum sem ekki eru til samræmds prófs. En Lífsleiknin getur verið rosalega skemmtileg og alveg sérstaklega þegar ég næ nemendum á flug í kennslustundum. Eins er ég ánægð með minn þátt kennslunnar þegar ég sé nemendur nýta sér það sem við höfum verið að læra saman og spjalla um.

Heimildir:
Armstrong, Thomas. 2001. Fjölgreindir í skólastofunni. Reykjavík, JPV útgáfa.
Ingvar Sigurgeirsson. 1996. Að mörgu er að hyggja. Reykjavík, Æskan.
Ingvar Sigurgeirsson. 1999. Litróf kennsluaðferðanna. Reykjavík, Æskan.
Trausti Þorsteinsson. 2003. Fagmennska kennara. Fagmennska og forysta: þættir í skólastjórnun. Reykjavík, Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands.


Viðbrögð við skilaverkefni 3

Author: Ingibjörg Aldís Ólafsdóttir
Date: 5 November 2007 20:06
Hæ Guðlaug.
Þetta er frábært skilaverkefni hjá þér, og þú kemur inn á svo marga góða punkta. Mér finnst t.d. mjög gott hjá þér að nefna skýr markmið fyrir nemendur, og fjölbreyttar kennsluaðferðir til að ná markmiðum. Og það er alveg rétt, þessar aðferðir lærast bara smátt og smátt, æfingin skapar meistarann. Auðvitað hafa kennarar ekki tugi kennsluaðferða á taktinum, þetta kemur með reynslunni og æfingunni. Og eins og þú segir að vera sveigjanlegur, og stöðugt að endurmeta sjálfan sig og læra eitthvað nýtt. Mér finnst gott að þú notar orðið kraftaverkamanneskjur yfir kennara. Þetta er sko alveg rétt, ef maður hugsar út í starfið þá eru kröfurnar oft annsi miklar. En á góðum degi er það allt þess virði, ekki satt. Frábært verkefni. Kv. IAÓ.

Author: Þórunn Júlíusdóttir
Date: 5 November 2007 23:07
Sæl Guðlaug,
mér fannst mjög gaman að lesa verkefnið þitt, það eru svo margir góðir punktar sem þú kemur inn á. Til dæmis þessi tilfinning sem situr eftir ef tími hefur verið vel heppnaður, hvað er það þá sem hefur haft að segja. Það er í raun engin staðaluppskrift til að góðri kennslu eins og þú segir réttilega og allar aðferðir t.d. Ingvar). Ég er að kenna eldri nemendum (meðalaldur 45 ár) og ég dáist að ykkur sem eruð með t.d. 25 börn í bekk og nokkra með greiningu eins og þú nefnir; það þarf kraftaverkafólk til að sinna því starfi vel, engin spurning. Hjá mér eru ekki agavandamál, heldur önnur vandamál sem tengjast þá helst að fólk hefur oft á tíðum lágt sjálfsmat vegna fyrri reynslu af skólum og þarf mikla hvatningu.
En frábært verkefni hjá þér, heiðarlegt og vel skrifað.
Kveðja,
Tóta.


Author: Asako Ichihashi
Date: 7 November 2007 22:21
Sæl Guðlaug,
Það var mjög gaman að lesa og auðvelt að skilja viðhorf þitt .
It was nice to see that somebody wrote an opinion which was very similar as mine. When I was reading yours I kept saying "a-ha! Einmitt!!" in my head;-). Like Aldís wrote, I also liked the word you used, "kraftaverkamanneskjur". We all are not perfect but to be a good / professional teacher, if we try to stand well there are so many requierment we need to be. This is not easy job and not everybody can do. You have to be aware of so many things. You have to be motivative, positive, and patient like you mentioned and maybe creative, too.
Flott verkefnið!!
kv.Asako

Author: Thelma Hrund Sigurbjörnsdóttir
Date: 8 November 2007 22:24
Sæl Guðlaug gott verkefni hjá þér. Mér finnst þú hafa náð að svara spurningunum vel ég var sjálf eitthvað svo föst í að þetta væri allt of samhangandi spurningar en ég sé að þú hefur leyst vel úr þessu. Það er ekki spurning að skýrt markmið og gott skipulag er mikilvægt atriði þegar kemur að þvi kenna vel. Gangi þér. Ég tók eftir að þú segist ekki eiga neina sérstaka grein og svarar út frá lífsleikninni. Ég er einmitt í svipuðum sporum og hef lagt áherslu á lífsleiknina í æfingakennslunni. Ótrúlega skemmtilegur áfangi sem bíður upp á mikla möguleika og samskipti eru einmitt mjög mikilvæg eins og þú kemur inn á. Ég er viss um að þú getur leyft þér að segja að þú eigir lífsleiknina.
Kveðja
Thelma

Author: Bergþór Morthens
Date: 14 November 2007 23:27
Það er í raun og veru fáraánlegt hversu miklar kröfurnar eru af kennurum og í mörgum tilfellum ofurmannlegar. Kennari þarf að vera fær um að koma til móts við mismunandi þarfir þeirra fjölmörgu einstaklinga sem skipa bekk. Las góða grein í dag á netinu á Vísi.is
Svo sem ekkert nýtt undir sólinni en margir góðir punktar.
Flott verkefni hjá þér og gaman að lesa það.
Kv.
Bergþór


Author: Halla Sigrún Arnardóttir
Date: 15 November 2007 22:27
Sæl Guðlaug,
flott vekefni hjá þér, skýrt og skilmerkilegt. Einu hjó ég þó eftir sem ég er ekki alveg sammála, vissulega þarf kennari að vera með yfirburðaþekkingu á námsefninu sem hann er að kenna en við erum nú bara mannlega þó við séum stundum "kraftaverka-manneskjur", og það kemur fyrir að við fáum spurningar sem við getum ekki svarað. Þá hefur það reynst mér best að vera heiðarleg og segja einfaldlega að ég viti ekki svarið en muni komast að því og bera svo svarið upp í næsta tíma. Mér hefur ekki þótt þetta rýra traust nemendanna (ekki það að þetta sé oft að koma fyrir en hefur þó komið fyrir) :)
kv.Halla.

Skilaverkefni 4: Námsmat

Viðhorf mín gagnvart námsmati

Ég tel að námsmat sé nauðsynleg aðferð til að kanna námsárangur nemenda. Það þarf að vera einhver stöðluð aðferð til að kanna hvort nemendur hafi náð að tileinka sér náms-efnið eða ekki. Hins vegar tel ég það vera afskaplega varhugavert að hafa sama staðlaða námsmatið fyrir alla. En þá er kannski tilgangur námsmatsins horfinn ef ekki allir eru metnir á sama hátt?? Ég geri mér fulla grein fyrir því að þetta hljómar öfugsnúið hjá mér enda er námsmat ekki einfalt mál. Enda segir í grein Ingvars Sigurgeirssonar (1998) að aðferðir við námsmat hafi lengi verið deilumál og sitt sýnist hverjum. Hins vegar telur hann að það sem helst vefjist fyrir kennurum sé að námsmatið sé sem sanngjarnast fyrir alla nemendur.

Þrátt fyrir að ég telji að meta þurfi nemendur á einhvern staðlaðan hátt þá má kannski það mat vega minna í lokaeinkunn viðkomandi nemenda. Ég er rosalega hrifin af feril-möppunum þar sem nemendur safna að sér efni sem þeir sjálfir eru ánægðir með og vilja halda upp á. Getur slík mappa verið heimild um öll námsverkefni nemendans. Það þarf ekki endilega að safna bestu verkunum, heldur er einnig um að gera að setja líka stundum misheppnuð verk eða skissur í möppuna. Því það er jú mikilvægt að nemendur átti sig á því, og sjái það, að maður lærir af mistökunum.

Nemandinn getur einnig haldið upp á skrif sín í möppunni og jafnvel umsagnir kennara. Með slíkri möppu má sjá hvernig verk nemandans hefur þróast og hvað hann hefur lært. Í áðurnefndri grein Ingvars kemur meðal annars fram að námsmat sem byggir á slíkri ferilmöppu eða sýnimöppu auðveldar kennurum að meta nám og framfarir nemenda; það auðveldar foreldrum og kennurum að átta sig betur á því hvernig nemandanum miðar í náminu; og það auðveldar einnig nemendum að verða virkir þátttakendur í námsmatinu.

Það segir sig nú sjálft að slíkar ferilmöppur henta sérstaklega vel í samskiptum skóla og foreldra. Það er gott fyrir kennarann að hafa slíkar möppur og geta sýnt foreldrum til dæmis á foreldrafundum. Þá er hægt að fara yfir stöðu viðkomandi nemenda. Einnig held ég að foreldrum finnst mjög gott að fá að sjá með eigin augum verk barna sinna og sjá umsagnir kennara um þau verk.

Til hvers er námsmat?

Samkvæmt Paul Black og Dylan Wiliam (ódagsett) hafa kannanir sýnt fram á að námsmat sé nauðsynlegur hluti kennslu og þróun slíks námsmats geti aukið námsárangur. Í raun telja þeir að formlegt námsmat sé eina leiðin til að auka námsárangur. Eins og ég sagði áður þá hlýtur að þurfa einhvers konar mat til að kanna námsárangur nemenda og meta framfarir þeirra. Hins vegar er svo alltaf spurningin hvers konar námsmat á að hafa. Ég tel það vera mjög jákvæða þróun að í dag sé mikil umræða um námsmat, tilgang þess og hvernig standa eigi að námsmati. Í skólanum „mínum” er þetta nokkuð stór hluti af umræðu og vinnu kennara á deildarfundum yfir veturinn, þ.e. að velta fyrir sér hvers konar námsmat eigi að vera. Það hefur sýnt sig að mikill áhugi er á fjölbreyttu námsmati og telja kennarar að þannig geti þeir sem best komið til móts við alla nemendur sína. Enda segir í aðalnámskrá (1999) að það eigi að meta nemandann út frá sem flestum hliðum og að leggja áherslu á þátttöku nemandans sjálfs í mati á eigin námi.

Ég tel að námsmat sé upplögð leið til að komast að því hvernig nemendur mínir læra og styrkleika og veikleika hvers og eins. Eins og Derek Rowntree (ódagsett) heldur fram, getur nefnilega verið ansi auðvelt fyrir kennara að missa sig í útkomu námsmats og hvaða einkunnir nemendur þeirra fá og missa þannig sjónar á upphaflega tilganginum með námsmatinu, þ.e. að kanna framfarir þeirra í námi

Ég má til með að tjá mig aðeins um samræmdu prófin í 10. bekk. Mér finnst það vera alltof langt gengið þegar vinna nemenda í 10. bekk, sérstaklega eftir áramót, er svo til eingöngu miðuð við þau sex fög sem nemendur þurfa/mega taka samræmd próf í. Mér finnst við leggja alltof mikla áherslu á samræmdu prófin í 10. bekk. Sem námsráðgjafa, finnst mér ansi erfitt að fá nemendur til mín vegna prófkvíða strax í janúar og prófin eru ekki fyrr en eftir nokka mánuði. Margir hverjir eru þá strax farnir að kvíða prófunum. Þetta getur ekki verið gott fyrir nemendur okkar. Og hvað með þá nemendur sem gengur illa á prófum? Þetta geta verið fínir námsmenn en þegar kemur að prófum þá gengur þeim því miður illa, og hvað með þá sem eiga við sértæka námsörðugleika að stríða? Eða þá sem áttu erfiðan dag og því ekki upp á sitt besta þann prófdaginn? Því finnst mér svo óréttlátt að leggja þessa ofuráherslu á samræmdu prófin. Ég held það væri miklu nær að meta vinnu nemenda allt unglingastigið og sýna þannig fram á námsárangur þeirra og framfarir. Það mat geta svo framhaldsskólarnir nýtt sér þegar valið stendur um hverjir komast inn í viðkomandi framhaldsskóla.

Hvernig vil ég haga námsmati þegar ég kenni mína grein?

Í minni grein, lífsleikni, tel ég ekki henta að hafa formlegt námsmat. Heldur er miklu betra að vera með símat og sjálfsmat. Þetta þýðir það að ég er að meta virkni og frammistöðu nemenda minna allt árið. Það er í raun mjög auðvelt að meta frammistöðu nemenda í lífsleikni því svo mikill hluti kennslunnar byggir á virkni nemenda. Þeir verða að vera virkir og taka þátt. Þegar við erum að spjalla um lífið og tilveruna og nemendur að tjá sig um reynslu sína eða skoðanir þá er að sjálfsögðu ekki neitt rétt eða rangt svar. Heldur byggir þetta á því að allir taki þátt. Ég hef hagað námsmatinu þannig að ég punkta hjá mér tvisvar í mánuði virkni og frammistöðu nemenda. Einnig hef ég látið nemendur mína meta eigin frammistöðu. Mér finnst þetta vera frábær námsmatsaðferð en hef því miður ekki notað hana mikið. En ég hef þó látið nemendur mína gera sjálfsmat og útkoman kom mér satt að segja skemmtilega á óvart. Þeir tóku þessu mjög alvarlega og voru ekki að gefa sjálfum sér 10 í einkunn ef þeim fannst þeir ekki eiga það skilið. Svo hef ég metið verkefnavinnu nemenda yfir veturinn. Svona hef ég hagað námsmati í lífsleikni. Það skemmtilega við námsmat er að maður er sífellt að þróa og bæta og breyta námsmatinu. Það sem þarf þó að vera á hreinu er að í upphafi skólaárs viti nemendur nákvæmlega hvað verði metið og hve stór hluti það er af lokaeinkunn.

Heimildir:
Aðalnámskrá grunnskóla, almennur hluti. 1999. Reykjavík, Menntamálaráðuneytið.

Derek Rowntree. Ódags.  Designing an assessment system.

Ingvar Sigurgeirsson. 1998. Námsmat byggt á traustum heimildum.

Paul Black og Dylan Wiliam. Ódags. Inside the Black Box: Raising Standards through classroom assessment.


Viðbrögð við skilaverkefni 4

Author: Ingibjörg Aldís Ólafsdóttir
Date: 20 November 2007 19:34
Hæ Guðlaug. Frábært verkefnið þitt, þú gerir alltaf svo fín verkefni. Og ég er algjörlega sammála þér varðandi það sem þú ert að segja. Fjölbreytt námsmat er nauðsynlegt og það kemur einmitt til móts við sem flesta nemendur. Við megum ekki festast í formlegum prófum sem einmitt margir kvíða og eiga erfitt með, þótt að þeir séu góðir námsmenn. Ég held að þú metir líka lífsleiknina ekki ósvipað og ég met sönginn. Með virkni og símati. Ég er á þeirri skoðun að það að skella öllum í eitt stórt lokapróf geti reynst varhugavert. Við verðum að skoða það sem gerist yfir skólaárið í heild, og nota sem flestar námsmatsaðferðir. Svo er ég sammála þér með ferilmöppurnar, þær eru mjög sniðugar og foreldrar geta einmitt skoðað þær og fylgst með náminu hjá barni sínu. Kv. IA


Author: Thelma Hrund Sigurbjörnsdóttir
Date: 21 November 2007 22:41
Sæl Guðlaug þú ert greinilega búin að vellta þessu vel fyrir þér og ég er sammála þér um að námsmat er ekki einfallt mál. Nemendur þurfa að finna það að þeir eru metnir á svipaðann hátt. Man vel sjálf eftir dæmi úr grunnskóla sem sat lengi í vinkonu minni þar sem hún fékk umsögn um verkefni þar sem kennarinn sagði að þetta væri ágætis verkefni en þar sem hún ætti að geta gert svo mikilu betur fengi hún bara 7. Hún upplifði lengi að ekki væri verið að meta hennar verkefni út frá því sama og hinna þótt þarna hafa kennarinn auðvitað ætlað henni þetta sem kvattningu. Þetta getur því verið marg slungið. Tek undir með þér með ferilmöppuna og hvað það er sniðugt að setja líkar skissur og verkefni sem eru ekki fullkominn til að sjá þróunina í náminu.
Gangi þér allti haginn.
Kveðja
Thelma


Author: Halla Sigrún Arnardóttir
Date: 23 November 2007 00:30
Sæl Guðlaug, rosalega málefnalegt og flott verkefni hjá þér!
Mér finnst mjög áhugaverð umfjöllun þín um ofuráherslu á samræmdu prófin, ég hvet þig til að kíkja á doktorsrannsókn Rúnars Sigþórssonar sem ég vitna í í mínu verkefni, þar koma fram mjög áhugaverðir punktar varðandi m.a. samræmdu prófinl
Varðandi ferilmöppur þá eru mín fyrstu kynni af þeim núna í náminu og verð ég að viðurkenna að í fyrstu var ég frekar skeptísk en eftir því sem á líður sé ég að þetta er mjög gott verkfæri fyrir nemendann til að byggja upp staðgóða þekkingu á því sem hann er að læra.
Mér finnst mjög áhugavert að þú skulir láta krakkana gefa sjáfsmat, þú nefnir krakkarni hafi ekki gefið sér háa einkunn ef þeim fannst þeir ekki eiga það skilið, þetta er einmitt málið, sérstaklega varðandi ungilnga að þeir læri að taka ábyrgð á sér og sínum verkum og finni að þeim sé treystandi fyrir hlutum eins og sjálfsmati.

Gangi þér áfram vel í kennslunni,
Halla.


Author: Asako Ichihashi
Date: 26 November 2007 01:27
Hæ Guðlaug,
Flott verkefni hjá þér. Auðvelt að lesa og skilja fyrir mig.
I agreee with you many things.
I agree that Portfolio is very good mehod. I enjoy myself looking at my daugters' file and see what they have learned at school:).
About samræmdupróf, I also wrote to Halla, the situation in Japan is worse than here, there, young children are studying crazy to pass entrance exam for private middle schools, high schools and universities. The entrance exam is so difficult and they go to another school to study more after normal school instead go to tomstund. I think it is ok to have samræmdupróf if they could chnage the perpose, for seeing their achivement at elementary school and motivating them for thieir future studies. Not makng stdutents stress and school give them peressure to get good grade for standard of school.

Gangi þér vel í framtíðinni.
kv.Asako

Höfundur

Guðlaug Erlendsdóttir
Guðlaug Erlendsdóttir
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband