Skilaverkefni 2: Viðhorf mín til nemenda

Hver eru viðhorf mín til nemenda?
Almennt hef ég mjög jákvæð viðhorf til nemenda, upp til hópa eru þetta allt góðir og yndislegir krakkar. Ég hef kennt í nokkur ár og það hefur verið mjög gaman að fylgjast með nemendum og skynja hve ólíkir þeir eru. Maður er fljótur að læra að ekki þýðir að bjóða öllum upp á það sama, hvorki hvað námsefni né kennsluaðferðir varðar. Sumum nemendum gengur betur að vinna með höndunum og jafnvel að draga upp mynd af því sem við erum að gera. Á meðan aðrir til dæmis gera mikið af því að taka glósur og þess háttar. Mér finnst það mjög krefjandi, en um leið mjög gefandi, að finna út hvað hentar hverjum nemenda. Svo finnst mér líka alveg frábært að kynnast því hvað margir þeirra hafa rosalega gott sjónminni. Það er stundum alveg lyginni líkast.

Þrátt fyrir að nemendur séu almennt frábærir krakkar, þá hef ég að sjálfsögðu kynnst nemendum sem mér líkar síður við en aðra. Í fyrstu var mjög erfitt að viðurkenna fyrir sjálfri mér að mér líkaði misvel við nemendur mína, það var erfiður biti að kyngja. En maður verður að vera raunsær og taka þessu eins og öllu öðru í kennslu. Það er náttúrulega óraunhæft að ætlast til þess að manni líki vel við alla, ekki frekar en að öllum nemendum líki við mann sjálfan. Það reynir hins vegar á fagmennsku kennarans að láta það ALDREI í ljós og aldrei að mismuna nemendum hvernig sem manni líkar við þá.

Hvaða augum lít ég þá?
Eins og ég talaði um hér að ofan, þá eru nemendur náttúrulega eins ólíkir og þeir eru margir. Hver og einn er einstakur og kemur það í hlut kennarans að virkja hinar ólíku hliðar nemenda sinna og að koma til móts við ólíkar þarfir og getu hvers og eins.

Hvernig hugsa ég um fólk sem námsmenn?
Almennt held ég að fólk séu góðir námsmenn og vilja gera sitt besta. Ég held að við sem kennarar verðum að sjá til þess að nemendur líti á námið sem áfanga að einhverju markmiði og hafi þannig tilgang. Jafnframt verðum við að vera dugleg að hvetja þá áfram og gera námið þannig úr garði að það sé hvetjandi. Mér hefur því miður fundist að nemendum í grunnskóla skorti stundum metnað og hvata til að gera sitt besta. Þar held ég að við kennarar verðum að taka okkur á og kveikja með þeim áhuga og metnað. Þetta má til dæmis gera með því að hætta að matreiða allt ofan í þá í grunnskóla. Ég tel að við verðum að láta þá taka meiri ábyrgð á sínu námi og námsframvindu fyrr á skólagöngunni. Það getur verið fullseint í rassinn gripið að ætlast til þess að þegar þeir eru komnir á framhaldsskólastigið séu þeir skyndilega færir í að stjórna og bera fulla ábyrgð á sínu námi.

Hvað merkir í mínum huga að læra eitthvað vel?
Þegar ég er orðin örugg með eitthvað efni og lagt góða vinnu í það þá tel ég mig hafa lært vel. Eins tel ég að ég hafi lært ákveðið efni vel ef ég get komið því frá mér til nemenda á auðskilinn og öruggan hátt. Þegar maður kann efnið vel þá eykst öryggið og maður lendir ekki á gati í kennslustund ef nemendur spyrja einhvers sem maður er ekki öruggur með. Eins tel ég að maður hafi lært eitthvað vel ef við getum nýtt okkur þann lærdóm úti í atvinnulífinu og sinnt starfi okkar af öryggi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Guðlaug Erlendsdóttir
Guðlaug Erlendsdóttir
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband