Skilaverkefni 4: Námsmat

Viðhorf mín gagnvart námsmati

Ég tel að námsmat sé nauðsynleg aðferð til að kanna námsárangur nemenda. Það þarf að vera einhver stöðluð aðferð til að kanna hvort nemendur hafi náð að tileinka sér náms-efnið eða ekki. Hins vegar tel ég það vera afskaplega varhugavert að hafa sama staðlaða námsmatið fyrir alla. En þá er kannski tilgangur námsmatsins horfinn ef ekki allir eru metnir á sama hátt?? Ég geri mér fulla grein fyrir því að þetta hljómar öfugsnúið hjá mér enda er námsmat ekki einfalt mál. Enda segir í grein Ingvars Sigurgeirssonar (1998) að aðferðir við námsmat hafi lengi verið deilumál og sitt sýnist hverjum. Hins vegar telur hann að það sem helst vefjist fyrir kennurum sé að námsmatið sé sem sanngjarnast fyrir alla nemendur.

Þrátt fyrir að ég telji að meta þurfi nemendur á einhvern staðlaðan hátt þá má kannski það mat vega minna í lokaeinkunn viðkomandi nemenda. Ég er rosalega hrifin af feril-möppunum þar sem nemendur safna að sér efni sem þeir sjálfir eru ánægðir með og vilja halda upp á. Getur slík mappa verið heimild um öll námsverkefni nemendans. Það þarf ekki endilega að safna bestu verkunum, heldur er einnig um að gera að setja líka stundum misheppnuð verk eða skissur í möppuna. Því það er jú mikilvægt að nemendur átti sig á því, og sjái það, að maður lærir af mistökunum.

Nemandinn getur einnig haldið upp á skrif sín í möppunni og jafnvel umsagnir kennara. Með slíkri möppu má sjá hvernig verk nemandans hefur þróast og hvað hann hefur lært. Í áðurnefndri grein Ingvars kemur meðal annars fram að námsmat sem byggir á slíkri ferilmöppu eða sýnimöppu auðveldar kennurum að meta nám og framfarir nemenda; það auðveldar foreldrum og kennurum að átta sig betur á því hvernig nemandanum miðar í náminu; og það auðveldar einnig nemendum að verða virkir þátttakendur í námsmatinu.

Það segir sig nú sjálft að slíkar ferilmöppur henta sérstaklega vel í samskiptum skóla og foreldra. Það er gott fyrir kennarann að hafa slíkar möppur og geta sýnt foreldrum til dæmis á foreldrafundum. Þá er hægt að fara yfir stöðu viðkomandi nemenda. Einnig held ég að foreldrum finnst mjög gott að fá að sjá með eigin augum verk barna sinna og sjá umsagnir kennara um þau verk.

Til hvers er námsmat?

Samkvæmt Paul Black og Dylan Wiliam (ódagsett) hafa kannanir sýnt fram á að námsmat sé nauðsynlegur hluti kennslu og þróun slíks námsmats geti aukið námsárangur. Í raun telja þeir að formlegt námsmat sé eina leiðin til að auka námsárangur. Eins og ég sagði áður þá hlýtur að þurfa einhvers konar mat til að kanna námsárangur nemenda og meta framfarir þeirra. Hins vegar er svo alltaf spurningin hvers konar námsmat á að hafa. Ég tel það vera mjög jákvæða þróun að í dag sé mikil umræða um námsmat, tilgang þess og hvernig standa eigi að námsmati. Í skólanum „mínum” er þetta nokkuð stór hluti af umræðu og vinnu kennara á deildarfundum yfir veturinn, þ.e. að velta fyrir sér hvers konar námsmat eigi að vera. Það hefur sýnt sig að mikill áhugi er á fjölbreyttu námsmati og telja kennarar að þannig geti þeir sem best komið til móts við alla nemendur sína. Enda segir í aðalnámskrá (1999) að það eigi að meta nemandann út frá sem flestum hliðum og að leggja áherslu á þátttöku nemandans sjálfs í mati á eigin námi.

Ég tel að námsmat sé upplögð leið til að komast að því hvernig nemendur mínir læra og styrkleika og veikleika hvers og eins. Eins og Derek Rowntree (ódagsett) heldur fram, getur nefnilega verið ansi auðvelt fyrir kennara að missa sig í útkomu námsmats og hvaða einkunnir nemendur þeirra fá og missa þannig sjónar á upphaflega tilganginum með námsmatinu, þ.e. að kanna framfarir þeirra í námi

Ég má til með að tjá mig aðeins um samræmdu prófin í 10. bekk. Mér finnst það vera alltof langt gengið þegar vinna nemenda í 10. bekk, sérstaklega eftir áramót, er svo til eingöngu miðuð við þau sex fög sem nemendur þurfa/mega taka samræmd próf í. Mér finnst við leggja alltof mikla áherslu á samræmdu prófin í 10. bekk. Sem námsráðgjafa, finnst mér ansi erfitt að fá nemendur til mín vegna prófkvíða strax í janúar og prófin eru ekki fyrr en eftir nokka mánuði. Margir hverjir eru þá strax farnir að kvíða prófunum. Þetta getur ekki verið gott fyrir nemendur okkar. Og hvað með þá nemendur sem gengur illa á prófum? Þetta geta verið fínir námsmenn en þegar kemur að prófum þá gengur þeim því miður illa, og hvað með þá sem eiga við sértæka námsörðugleika að stríða? Eða þá sem áttu erfiðan dag og því ekki upp á sitt besta þann prófdaginn? Því finnst mér svo óréttlátt að leggja þessa ofuráherslu á samræmdu prófin. Ég held það væri miklu nær að meta vinnu nemenda allt unglingastigið og sýna þannig fram á námsárangur þeirra og framfarir. Það mat geta svo framhaldsskólarnir nýtt sér þegar valið stendur um hverjir komast inn í viðkomandi framhaldsskóla.

Hvernig vil ég haga námsmati þegar ég kenni mína grein?

Í minni grein, lífsleikni, tel ég ekki henta að hafa formlegt námsmat. Heldur er miklu betra að vera með símat og sjálfsmat. Þetta þýðir það að ég er að meta virkni og frammistöðu nemenda minna allt árið. Það er í raun mjög auðvelt að meta frammistöðu nemenda í lífsleikni því svo mikill hluti kennslunnar byggir á virkni nemenda. Þeir verða að vera virkir og taka þátt. Þegar við erum að spjalla um lífið og tilveruna og nemendur að tjá sig um reynslu sína eða skoðanir þá er að sjálfsögðu ekki neitt rétt eða rangt svar. Heldur byggir þetta á því að allir taki þátt. Ég hef hagað námsmatinu þannig að ég punkta hjá mér tvisvar í mánuði virkni og frammistöðu nemenda. Einnig hef ég látið nemendur mína meta eigin frammistöðu. Mér finnst þetta vera frábær námsmatsaðferð en hef því miður ekki notað hana mikið. En ég hef þó látið nemendur mína gera sjálfsmat og útkoman kom mér satt að segja skemmtilega á óvart. Þeir tóku þessu mjög alvarlega og voru ekki að gefa sjálfum sér 10 í einkunn ef þeim fannst þeir ekki eiga það skilið. Svo hef ég metið verkefnavinnu nemenda yfir veturinn. Svona hef ég hagað námsmati í lífsleikni. Það skemmtilega við námsmat er að maður er sífellt að þróa og bæta og breyta námsmatinu. Það sem þarf þó að vera á hreinu er að í upphafi skólaárs viti nemendur nákvæmlega hvað verði metið og hve stór hluti það er af lokaeinkunn.

Heimildir:
Aðalnámskrá grunnskóla, almennur hluti. 1999. Reykjavík, Menntamálaráðuneytið.

Derek Rowntree. Ódags.  Designing an assessment system.

Ingvar Sigurgeirsson. 1998. Námsmat byggt á traustum heimildum.

Paul Black og Dylan Wiliam. Ódags. Inside the Black Box: Raising Standards through classroom assessment.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Höfundur

Guðlaug Erlendsdóttir
Guðlaug Erlendsdóttir
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband